Projects List
Vogabyggð - Fólkaskúli í Reykjavík
Borgarlandslag Elliðaárdalurinn, sem er einstakt útivistarsvæði, á upptök við Elliðavatn og teygir sig til norðurs að Elliðaárvogi og Fleyvangi. Unnið er með þá grænu vin sem dalurinn er í borgarlandslaginu og tengingu við vatnið sem umlykur svæðið. Ný brú tengir byggðina, skólann og náttúruna í eina samofna heild. Fjölbreytt skólastarfsemin safnast undir einu þaki sem rís til norðurs í átt að Esjunni.
Brúin Brúin myndar tengingu að Fleyvangi og náttúrunni við Elliðaárósa. Hún liggur frá Vörputorgi og tengist skólanum á annarri hæð þar sem hún breikkar og skapar áningarstað með útsýni til fjalla. Brúin heldur áfram yfir aðkomuveg skóla og smábátahafnar þar sem hún tengist núverandi göngu og hjólastígum.
Undir einu þaki Skólinn mótast af fjórum kjörnum sem hýsa heimasvæði nemenda og kennslurými. Þeir mynda sterkan ramma um sameiginleg rými með gagnsæi og góðum innri tengslum. Miðsvæði skólans er hátt og opið rými á milli kjarnanna. Þar er aðkomurými skólans auk sameiginlegra rýma sem hýsa innri garð, hátíðar- og matsal ásamt íþróttamiðstöð.
Innri starfsemi Yngsta stig leikskólans er staðsett í suðurhluta fyrstu hæðar með beinu aðgengi að innri garði ásamt leiksvæðum til austurs og suðurs. Hátíðarsalur, bjartur matsalur og settrappa eru í miðri byggingunni, íþróttamiðstöð og sérgreinakennsla liggja til norðurs. Í suðurhluta annarrar hæðar er efsta stig leikskólans og yngsta stig grunnskólans með beinu aðgengi að útileiksvæði og sparkvelli í austri. Á miðsvæði annarrar hæðar eru vinnu- og undirbúningsrými starfsmanna ásamt stjórnunarrými skólans með greiðu aðgengi frá svalagangi og innri brúm. Norðar er upplýsingamiðstöð og miðstig grunnskólans. Á efstu hæð er aðstaða efsta stigs nemenda, skólatorg og félagsrými með stórbrotnu útsýni til sjávar og fjalla auk góðra tengsla við miðrými skólans og innganga.
Útisvæði Leiksvæði skólans tengjast útivistar- svæði Elliðaárdals. Leiksvæðin skiptast í minni leikrými ýmissa aldurshópa. Þannig er innra garðrými leiksvæði þeirra yngstu sem jafnframt tengist stærra og opnara leiksvæði til suðurs. Efsta leikskólastig á leiksvæði austan við sitt heimasvæði. Nemendur eldri árganga eiga aðgang að opnara leik- og útivistarsvæði þar sem rými er fyrir útikennslu og vísindagarða. Göngubryggja er staðsett milli skólans og Ketilbjarnarsíkis. Bryggjan er öllum aðgengileg, hún er í góðum tengslum við íbúðabyggðina og skapar spennandi möguleika fyrir samkomur utanhúss. Frá miðsvæði skólans er beint aðgengi að bryggjunni.
Áfangar og sjálfbærni Við efnisval og frekari hönnun skólans verður hugað vel að sjálfbærum byggingarkostum. Áhersla verður lögð á að mælikvarði og rýmisupplifun falli að fjölbreyttum þörfum nemenda og starfsfólks skólans. Fyrsti byggingar- áfangi markast af suðurhluta byggingarinnar og miðsvæðinu. Annar áfangi tekur til norðurhluta byggingarinnar að brúnni, þriðji áfangi tekur svo við norðan brúarinnar. Tæknirými verða staðsett miðlægt í návist við mötuneyti, sérkennslurými og leikfimisal.
Náms og þroskaferli nemenda hefst í suðri, fetar sig upp
bygginguna til norðurs þar sem útsýni og framtíðin blasir við.